Flugfreyjur um borð í flugvél Iceland Express, sem var á leið frá Tenerife síðastliðið fimmtudagskvöld, buðu farþegum vélarinnar að færa sig í önnur sæti í vélinni gegn greiðslu upp á 33 evrur.
Þetta tilboð barst farþegum eftir að vélin var komin á loft. Ýmsum farþegum þótti þetta nokkuð nýstárleg tilhögun, en að sögn Matthíasar Imsland, framkvæmdastjóra Iceland Express, eru þetta alþekkt vinnubrögð og síður en svo einsdæmi.
„Þetta er módel sem er þekkt um allan heim. Við bjóðum fólki upp á að færa sig í betri sæti gegn greiðslu. En það er að sjálfsögðu ekki hægt ef vélin er fullbókuð,“ segir Matthías. Hann segir ekkert athugavert við að bjóða farþegum upp á að færa sig um set gegn greiðslu, eftir að vélin er komin á loft, engar reglur séu um það. „Við bjóðum upp á að fólk kaupi sér tiltekin sæti í flugvélinni, á vefsíðunni og við innritun.“