Ítrekaði stuðning við ríki Palestínumanna

Össur Skarphéðinsson í Brussel nýlega.
Össur Skarphéðinsson í Brussel nýlega. Reuters

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ítrekaði í dag stuðning Íslendinga við réttindi Palestínumanna, þar á meðal við sjáfstætt ríki Palestínu innan landamæranna fyrir sex daga stríðið svonefnda árið 1967.

Opinbera fréttastofan Petra í Jórdaníu segir að Össur hafi lýst þessu yfir eftir fund með  Mohammad Sbeih, aðstoðarframkvæmdastjóra Arababandalagsins, í Kaíró í Egyptalandi í dag. Til stóð að Össur færi til Gasasvæðisins síðdegis og á fimmtudaginn fari hann til Ramallah á Vesturbakkanum. 

Petra segir, að í viðræðunum í dag hafi Össur sagt að Ísland styðji að ríki Palestínumanna verði viðurkennt. Þá hafi hann lagt áherslu á einingu Palestínumanna og hvatt samtökin Hamas og Fatah að bæta samskiptin svo hægt verði að framfylgja nýgerðu samkomulagi milli samtakanna og mynda nýja ríkisstjórn Palestínumanna, sem geti tekist á við aðsteðjandi vandamál.

Össur hvatti einnig til þess, að Ísraelsmenn aflétti hafnbanni, sem þeir hafa sett á Gasasvæðið. Sagðist hann ætla að heimsækja Gasa og ræða við palestínska embættismenn um hvernig Ísland geti stutt palestínsku þjóðina. 

Haft er eftir Sbeih, að hann hafi rætt við Össur um áform Araba og Palestínumanna um að sækja um fulla aðild ríkis Palestínumanna að Sameinuðu þjóðunum. 

Hann sagði, að Arababandalagið sé að reyna að afla stuðnings við að ríki Palestínumanna hljóti alþjóðlega viðurkenningu. Lagði hann áherslu á, að alþjóðasamfélagið eigi að viðurkenna ríki Palestínumanna með Austur-Jerúsalem sem höfuðborg. 

Frétt Petra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert