Óskar eftir fundi í utanríkismálanefnd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, óskar eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis eins fljótt og auðið er.

Segir í tilkynningu frá honum að nauðsynlegt sé að utanríkismálanefnd komi saman í ljósi yfirlýsingar utanríkisráðherra um að Íslendingar þurfi engar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í komandi aðildarviðræðum, enda samrýmist yfirlýsing ráðherrans ekki áliti meirihluta utanríkismálanefndar um samningsviðmið í sjávarútvegsmálum. 
 
„Einnig er mikilvægt nú í upphafi samningaviðræðna við ESB að utanríkismálanefnd komi saman til að fara yfir þann efnahagsvanda sem steðjar að evrusvæðinu í kjölfar síversnandi efnahagsstöðu Grikklands og möguleg áhrif vandans á stöðu Íslands. Nauðsynlegt er að fara vel yfir áhrif þess mikla efnahagsvanda sem Evrusamstarfið stendur frammi fyrir á umsókn Íslands að Evrópusambandinu og þær viðræður sem nú eru hafnar, enda er skjót aðild að evrusamstarfinu eitt þeirra markmiða sem utanríkisráðherra leggur mikla áherslu á.
 
Sérstaklega er óskað eftir því að utanríkisráðherra komi á fundinn," segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert