Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið að þorskvótinn á næsta fiskveiðiári verði 177.000 tonn, sem er 10% aukning frá yfirstandandi fiskveiðiári. Þá hefur hann ákveðið 5.000 tonna minnkun á ýsukvóta í 45.000 tonn.
Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins um ákvörðun heildaraflamarks fiskveiðiárið 2011/12 sem birtist nú síðdegis. Ákvörðun ráðherra er tekin að höfðu samráði við hagsmunaaðila og tekur mið af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Stofnunin kynnti ráðgjöf sína fyrir komandi fiskveiðiár á fundi í síðasta mánuði.
„Samhliða útgáfu aflamarks hefur ráðherra ákveðið að setja á fót starfshóp sem taki til athugunar notkun á flottrolli og áhrif þess á lífríki sjávar.
Hafrannsóknastofnunni verður falið að auka rannsóknir á mismunandi áhrifum veiðafæra með tilliti til lífríkis og orkunotkunar. Ennfremur verður því beint til stofunarinnar að kanna hrygningarstöðvar steinbíts og friðun þeirra,“ segir í frétt sjávarútvegsráðuneytisins.
Lítilsháttar aukning verður í ufsa og verður heildaraflinn á næsta fiskveiðiári 52.000 tonn. Heimildir í steinbít verða lækkaðar úr 12.000 tonnum nú í 10.500 tonn. Heildarafli djúpkarfa verður 12.000 tonn, sem er 2.000 tonna aukning, og gullkarfakvótinn eykst úr 30.000 tonnum í 40.000 tonn.
Aflaheimildir í keilu verða 7.000 tonn og löngu 9.000 tonn sem er aukning í báðum tilvikum. Heildaraflamark Íslendinga í grálúðu verður óbreytt eða 13.000 tonn.