Díoxín undir mörkum

Engidalur í Skutulsfirði.
Engidalur í Skutulsfirði. mynd/bb.is

Díoxín reyndist alls staðar vera undir mörkum á þeim stöðum sem Umhverfisstofnun tók sýni úr jarðvegi í maímánuði. Forsaga málsins er sú að díoxín mældust yfir mörkum í lok desember 2010 í mjólk í Skutulsfirði í nágrenni við sorpbrennsluna Funa.

Umhverfisstofnun lagði þá þegar í byrjun janúar til við umhverfisráðuneytið að eldri sorpbrennslum yrði gert að uppfylla hertari skilyrði um losun mengandi efna sem giltu fyrir nýrri sorpbrennslur.

Einnig var ákveðið að taka sýni í nágrenni við allar hugsanlegar uppsprettur díoxína, s.s. sorpbrennsla, stóriðju og áramótabrenna. Sýni voru tekin eftir að frost fór úr jörðu og send erlendis til greiningar.

Tekin voru 50 sýni af jarðvegi út um allt land, 27 sýni í nágrenni sorpbrennsla bæði starfandi og aflagðra, 10 í nágrenni iðnfyrirtækja, 4 sýni úr jarðvegi í brennustæðum og 9 viðmiðunarsýni. Einnig var tekið sýni úr sjávarseti í Skutulsfirði (í nágrenni við brennslustöð) og úr sjávarseti úr Álftafirði til viðmiðunar.

Sýnatakan fór fram seinnihluta maí mánaðar. Sum sýni á Suðurlandi voru tekin þar sem aska frá gosinu í Grímsvötnum lá yfir sýnatökustað. Greiningar á öskunni sýna að hún hefur engin áhrif á niðurstöður, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar.

Draga þarf úr losun díoxíns við sorpbrennslu í Eyjum

Við sorpbrennsluna í Vestmannaeyjum mældist styrkur díoxína í jarðvegi á bilinu 5-40 pg/g og því þarf að mati Umhverfisstofnunar að draga úr losun díoxína þar til að koma í veg fyrir frekari uppsöfnun.

Á tveimur brennustæðum, í Vestmanneyjum og Skutulsfirði, mældist  styrkur díoxína í jarðvegi á bilinu 5-40 pg/g og mun Umhverfisstofnun beina þeim tilmælum til heilbrigðisnefnda að efniviður brennanna sé þannig að sem minnst verði til af díoxínum við brunann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert