Gaf stefnuljós í allar áttir

Tveir voru teknir fyrir ölvun við akstur síðdegis í Reykjavík í dag. Sá fyrri var tekinn um fimm leytið á mótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Þar hafði orðið árekstur tveggja bíla og er lögregla kom á vettvang kom í ljós að  ökumaður annars þeirra var undir áhrifum áfengis.

Síðari ökumaðurinn var tekinn um klukkan sjö á Kringlumýrarbraut. Vegfarendur höfðu tilkynnt um einkennilegt aksturslag bifreiðar sem stöðvaði ítrekað á grænu ljósi, gaf stefnuljós „í allar áttir“ og rásaði mikið.

Undir stýri sat kona á sextugsaldri sem að sögn lögreglu var „gríðarlega ölvuð“. Hún var færð á lögreglustöð og þar tekið blóðsýni. Hvorki tjón né slys hlaust af.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert