Ögmundur kynnir sér vestfirska vegi

Ögmundur og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, ásamt vegagerðarmönnum á Hólmavík.
Ögmundur og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, ásamt vegagerðarmönnum á Hólmavík.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er ásamt fylgdarliði frá ráðuneytinu og Vegagerðinni  um þessar mundir á ferð um Vestfirði einkum til að kynna sér stöðu vegamála í fjórðungnum.

Hittir Ögmundur sveitarstjórnafólk og starfsmenn Vegagerðar og hefur einnig rætt við lögreglumenn.

Ögmundur átti í morgun fund með bæjarstjórum Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar ásamt nokkrum bæjarfulltrúum. Fundinn sátu einnig ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis og vegamálastjóri. Rætt var um það sem framundan er í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og fram kom hjá sveitarstjórnarmönnum að samstaða væri um það í Fjórðungssambandi Vestfirðinga að áhersla skyldi lögð á vegaframkvæmdir í Barðastrandarsýslu og síðan framkvæmdir við Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði.

Á Hólmavík hitti ráðherra starfsmenn miðstöðvar Vegagerðarinnar og heimsótti lögreglustöðina þar svo og lögreglustöðina á Ísafirði og starfsstöð Siglingastofnunar þar.

Í dag heldur Ögmundur ásamt fylgdarliði til Patreksfjarðar og þar er ráðgerður fundur með sveitarstjórnarmönnum og á morgun verður rætt við fulltrúa í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert