Hlusta eftir því sem fólk er ósátt við

Karl Sigurbjörnsson.
Karl Sigurbjörnsson. mbl.is/Ómar

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, segir á vefnum trú.is, að kirkjan verði að hlusta eftir  því sem fólk er ósátt við og bæta úr þar sem þurfi að bæta.

Í pistli, sem ber yfirskriftina Úrsagnir eru áskorun, segir Karl, að vissulega sé ástæða til að hafa áhyggjur af úrsögnum og fækkun í söfnuðum þjóðkirkjunnar.

„Það er samt ekki séríslenskt fyrirbæri. Alls staðar á Norðurlöndunum má sjá hliðstæða þróun, þar eru þjóðkirkjurnar líka að hopa og það af ýmsum ástæðum, lýðfræðilegum og menningarlegum. Eins og hér á landi má sjá einnig í þeim úrsögnum viðbrögð við deilum og hneykslismálum innan kirknanna," segir Karl.

Hann segir, að afar sorglegt sé að svo margir segi sig úr þjóðkirkjunni og sömuleiðis mjög miður að fólk beri minna traust til kirkjunnar og biskups hennar. „Ég tek það afar alvarlega, þau öll sem starfa innan kirkjunnar og þau sem líta til hennar um leiðsögn og þjónustu taka það afar alvarlega," segir Karl Sigurbjörnsson.

Pistill Karls Sigurbjörnssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert