Ýmsir þættir hafa áhrif á virkjanir

Einar Falur Ingólfsson

Að sögn Svanfríðar Jónasdóttur, formanns verkefnastjórnar rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma, hefur Torfajökulssvæðið mest verndargildi þegar kemur að hugsanlegum virkjunarframkvæmdum. Þar á eftir kemur Kerlingafjallasvæðið.

Einna líklegast er talið að virkjanir í Blönduveitu, Sandfelli, Hagavatni og í Brennisteinsfjöllum valdi breytingum á samfélaginu.

Spurð að því hvort það sé jákvætt eða neikvætt segir Svanfríður að ekki sé með nokkru móti hægt að fullyrða um það. „Með þessum breytingum er t.d. átt við eitthvað sem getur haft áhrif á vinnumarkað.  Sveitarstjórnarmenn horfa gjarnan á að það sé gott að fá breytingu vegna þess að þá skapist möguleikar á atvinu og fjölbreytni í atvinnulífi aukist,“ segir Svanfríður. „Það er það sem er verið að skoða þarna.“

Meðal annarra þátta sem skoðaðir voru var stofnkostnaður við að virkja á viðkomandi landsvæði. Kostnaðarsamastar eru, samkvæmt skýrslunni,   Hagavatnsvirkjun og Gýgjarfossvirkjun, einnig eru Blönduveita, Bláfellsvirkjun og Skrokkölduvirkjun taldar kostnaðarsamar.

„Þarna er verið að skoða: Er hagkvæmt að ráðast í viðkomandi virkjun? Er dýrt að virkja, eru línulagnir dýrar o.s.frv. En það skiptir kannski ekki öllu máli hvað skýrslan segir,“ segir Svanfríður. 

„Það sem skiptir auðvitað mestu máli er viðhorf viðkomandi fyrirtækis, hvernig það sér fyrir sér mögulegar framkvæmdir og hvenær. Það getur ráðist af lánsfjármörkuðum og ýmsu öðru. Það er fyrirtækið sem tekur ákvörðun, en það er gott að hafa þessar upplýsingar til hliðsjónar.“

Eftir að búið er að vega og meta þær umsagnir sem berast, munu iðnaðar- og umhverfisráðherrar leggja fram þingsályktunartillögu fyrir Alþingi þar sem fram kemur hvernig þeim virkjunarhugmyndum, sem komu til mats, verður raðað inn í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert