Arion banki segir að frásögn sem sé höfð eftir vandræðum rekstraraðila Hótels Hamars í Borgarnesi sé í verulegu ósamræmi við staðreyndir málsins og framvindu þess. Að öðru leyti getur bankinn ekki tjáð sig um viðskipti einstakra viðskiptamanna vegna þagnarskyldu.
Fram hefur komið að rekstraraðilinn furði sig á því að bankinn hafi ekki getað veitt sér yfirdráttarheimild í þrjá daga, upp á 1,5 milljónir kr., um síðustu mánaðamót til að geta greitt hluta starfsmanna sinna laun.
Bankinn hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunarinnar og er hún eftirfarandi:
„Sú frásögn sem höfð er eftir rekstraraðilum Hótels Hamars er að mati bankans í verulegu ósamræmi við staðreyndir málsins og framvindu þess.Það er hins vegar rétt að Landsel, dótturfélag bankans, á 70% eignarhlut í félaginu eftir endurskipulagningu. Viðræður standa yfir um sölu á þeim hlut og eru þær langt komnar.
Bankanum er hins vegar óheimilt að tjá sig um viðskipti einstakra viðskiptamanna skv. ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um þagnarskyldu og getur því ekki farið út í einstök efnisatriði þess opinberlega.“