Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 23 ára gamlan karlmann, Junierey Kenn Pardillo Juarez, í 6½ árs fangelsi fyrir að flytja nærri 37 þúsund e-töflur og 4471 skammt af LSD til landsins.
Þetta er eitt mesta smygl á e-töflum hingað til lands sem um getur og aldrei áður hefur verið lagt hald á jafnmarga LSD-skammta í einu. Götuverðmæti e-taflnanna var talið vera yfir 70 milljónir króna.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í mars þegar hann var handtekinn ásamt konu þegar þau komu til landsins frá Kanaríeyjum. Fundust fíkniefnin í tveimur töskum mannsins en í þeim var falskur botn. Konan sat í gæsluvarðhaldi í tæpa viku en var síðan sleppt og hún var ekki ákærð í málinu.
Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða rúmlega 1,8 milljónir króna í sakarkostnað.
Í dómnum er rakið, að Junierey tók að sér að fara til Kanaríeyja í því skyni að
sækja fíkniefni og flytja þau til landsins. Fyrir þetta átti fíkniefnaskuld
hans að lækka um nokkur hundruð þúsund krónur. Þá fékk hann 500 þúsund krónur fyrir ferðakostnaðinum.
Í Las Palmas var hringt í Junierey daginn fyrir heimferðina og síðan kom maður á hótelherbergi til hans með tvær ferðatöskur og þeir skipst á
töskum.
Í frumskýrslu lögreglu segir að Junierey hafi verið missaga um hvað væri í töskunum. Hann hefði sagt að hann héldi að það væru fíkniefni sem hann hefði sjálfur keypt og komið fyrir í töskunum, en hann væri ekki viss. Þá hefði hann sagt að þetta væri besta dóp í heimi og líklega væri þetta kókaín, en síðar sagt að um væri að ræða hass. Þegar hann var spurður í síðari yfirheyrslu um ástæðu þess að hann hefði sagt í fyrstu að það hefðu verið kannabisefni í töskunum sagði hann: „Vegna þess að mér finnst kannabisefni ekki hættulegt.“
Héraðsdómur segir ljóst, að Junierey hafi látið sér í léttu rúmi
liggja hvaða fíkniefni var um að ræða og magn þeirra.