Að sögn lögreglunnar á Selfossi hefur verið nær óslitin bílalest í gegnum bæinn frá því síðdegis og náði bílalestin á milli Selfoss og Hveragerðis á áttunda tímanum í kvöld.
Umferðin hefur gengið stórslysalaust fyrir sig, en mikið hefur verið um tilkynningar um vítaverðan akstur og „afbrigðilega hegðun“ í umferðinni, eins og glæfralegan framúrakstur og að aka framúr öfugu megin. Að sögn lögreglu er umferðin einna þyngst við Hellu.
Nokkuð var um minniháttar aftanákeyrslur á bílastæðum við verslanir og þjónustufyrirtæki á Selfossi í dag, en engin slys urðu á fólki.
Karlmaður á fimmtugsaldri var tekinn á 140 kílómetra hraða undir Ingólfsfjalli klukkan rúmlega níu í kvöld.