Fær ekki vopnin

Páll Reynisson.
Páll Reynisson.

Héraðsdómur Suðurlands hafnaði kröfu Páls Reynissonar um að lögreglan á Selfossi skili vopnum sem hún lagði hald á við rannsókn málsins. Fallist var á kröfur Páls að hann fái afrit af munaskýrslum lögreglu í málinu. 

Páll rekur Veiðisafnið á Stokkseyri og er skráður eigandi og umráðamaður mikils fjölda skotvopna. Við rannsókn málsins gerði lögreglan á Selfossi 90 skotvopn og fjölda skotfæra upptæk.

Héraðsdómur hafnaði kröfu Páls um að fá í hendur á ný tvær byssur, sem fundust í svefnherbergi. Þá vísaði dómurinn frá kröfu Páls um að fá í hendur nærri 90 skotvopn og skotfæri sem lögregla lagði hald á í Veiðisafninu og víðar í húsinu á þeirri forsendu, að um væri að ræða stjórnsýsluákvörðun, sem verði ekki borin undir dómara heldur innanríkisráðuneytið.

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands að við leit í húsum á vegum Páls hafi fundist þrjú skothylki og tvær skammbyssur af Glock og Smith & Wesson gerð á náttborði í svefnherbergi. Reyndist önnur skammbyssan spennt og með skot í skotgeymi. Lögreglan lagði m.a. hald á þessi tvö vopn.

Í rannsóknargögnum málsins kemur fram að Páll hafi handleikið tvær skammbyssur þegar lögreglumenn voru á vettvangi. Kemur fram í úrskurði héraðsdóms að lögreglumenn hafi talið hótanir Páls og stórkostlega ámælisverða meðferð á skotvopnum fallnar til að vekja mikinn ótta.

Lögreglan rannsakar nú ætluð brot Páls á hegningarlögum og vopnalögum.

Páll var sviptur skotvopnaleyfi sínu til bráðabirgða og verður endanleg ákvörðun um skotvopnaleyfi hans tekin með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknar.

Auk þess að leggja hald á 90 skotvopn og skotfæri, lagði lögreglan hald á öll efni til skotfæragerðar. Með því er átt við t.a.m. púður, skothylki og kúlur. 

Segir í niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms að byggt sé á að sú aðgerð lögreglu að leggja hald á skotvopnin, að frátöldum tveimur skammbyssum og þremur skothylkjum, hafi verið stjórnsýsluákvörðun sem sæti kæru til aðra stjórnvalds. Verði það því ekki borið undir dómara 

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert