„Hún er grálúsug þessi,“ sagði Rögnvaldur Guðmundsson þegar hann hafði strandað silfurbjartri og sterkri hrygnu neðst í veiðistaðnum Silungabakka í Víðidalsá í gærmorgun. „Hún tók alveg þarna efst,“ sagði Rögnvaldur, benti upp strenginn og bætti við að hann hefði séð þar að minnsta kosti fimm laxa til. Síðan brá hann málbandi á þykka hrygnuna, sem reyndist 85 cm löng.
Eins og margir veiðimenn sem blaðamaður hitti í norðankuldanum á Norðurlandi síðustu daga, sagði Rögnvaldur laxveiðina vera tregari nú en á sama tíma síðustu ár. Þá var veiðin líka frábær. Samkvæmt veiðitölum Landssambands veiðifélaga hafði í fyrradag verið landað 37 löxum í Víðidalsá og Fitjá en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 200.
Þegar ég hitti Rögnvald voru laxar að stökkva víða á neðsta laxasvæðinu og hann kvartaði ekki; þótt hollið væri bara búið að ná 12 þá var hann með sex þeirra. Tvo smálaxa en hina væna, þar á meðal einn sem hann landaði á Neðri-Laufásbreiðu og mældist 101 cm, eða 20,5 pund.
„Svo kom ég hingað upp að Silungabakka og setti klukkan 21.10 í stóran hæng sem var farinn að taka lit. Ég missti hann 55 mínútum síðar og þá hafði hann rétt úr tveimur krókum á þríkrækjunni. Hann var mun stærri en þessi 101 cm,“ sagði Rögnvaldur sem hefur landað á annan tug fiska yfir 20 pund í Víðidal.
Hann gekk síðan aftur efst í strenginn, kastaði hits-túpu og strax var annað vænn á; sá reyndist 88 cm.
Í Hnausastreng í Vatnsdalsá voru norskir feðgar við veiðar í gær, Jan Erik og Martin Nilsen. Þeir voru ánægðir með lífið, nýkomnir úr ánni Gaula í Noregi þar sem þeir fengu ekki fisk við vikuveiðar en hinsvegar strax tvo stóra laxa á fyrstu vaktinni í Vatnsdal. „Strákurinn er með veiðidellu, ég kem hingað til að fylgjast með honum veiða,“ sagði faðirinn þegar hann hafði landað sínum fyrsta laxi í gær, eftir að hafa elt fiskinn frá Skriðuvaði niður í Hnausastreng, 88 cm hrygnu. Sonurinn var þá kominn með fjóra og allt fallega laxa á bilinu 84 til 91 cm.
„Það eru ótrúlega fallegir og sterkir fiskar hér,“ sagði hann.
Í fyrradag höfðu veiðst 55 í Vatnsdalsá en 130 á sama tíma í fyrra.
Á þriðjudag hitti blaðamaður menn við Blöndu sem voru að ljúka tveggja daga veiði og voru komnir með 45 laxa. „Það hefur gengið mjög vel, enda er fullt af nýjum fiski hér og allir vænir. Sá stærsti 18 pund,“ sagði einn þeirra.