Þingflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna funduðu, hvor í sínu lagi, í fyrrakvöld um fjárlagagerð og ríkisbúskapinn. Á fundi Samfylkingar var rætt um pólitískar forsendur fjárlaganna og þá helst hvaða leiðir væru færar til þess að auka tekjur ríkissjóðs.
Heimildarmenn VG sögðu við Morgunblaðið að ljóst væri að endurskoða þyrfti rammann, ekki síst með tilliti til kjarasamninga sem nýlega voru staðfestir. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti jafnframt vinnu við fjárlagagerð á fundi ríkisstjórnarinnar í gærdag.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, Franek Rozwadowski, vill ekki tjá sig um það hvort líklegt sé að áætlanir um afkomu ríkissjóðs muni standast, né heldur um það hvort hann telji að markmið um hallalausan ríkisrekstur muni nást árið 2013 eins og stefnt er að.