Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að svo virðist sem að starfsemi annars staðar í heilbrigðiskerfinu hafi dregist meira saman en áður. Það sé ljóst miðað við það álag sem starfsmenn Landspítalans glími nú við.
Hann segir í föstudagspistli, sem er birtur á vef Landspítalans, að miklar lokanir séu á sjúkrahúsinu vegna sumarleyfa. Þær séu þó ekki meiri en hafi verið á síðustu árum.
Björn segir að samdráttur annars staðar í kerfinu hafi m.a. leitt til þess að á spítalanum séu töluvert fleiri sjúklingar að bíða eftir vistunarúrræðum. Það er að segja sjúklingar sem hafi lokið meðferð á spítalanum en séu að bíða eftir að komast áfram innan heilbrigðiskerfisins, hvort sem það sé til styttri endurhæfingar eða dvalar á hjúkrunarheimili.
„Þessir sjúklingar eru nokkrir tugir og farnir að skipta máli í þeim rúmafjölda sem við höfum til umráða núna yfir sumarið. Þetta leiðir allt til aukins álags og erfiðleika við að koma nýjum sjúklingum fyrir og hefur orðið til þess að nú höfum við af og til þurft að leggja sjúklinga á ganga sem við höfum þó ekki oft þurft að gera upp á síðkastið,“ skrifar Björn.
Hann segir að starfsfólk spítalans hafi staðið sig frábærlega við að vinna úr þessari erfiðu stöðu.
„Vonandi stendur þetta allt til bóta þegar líður á sumarið en úrlausnir eru ekki margar því að Landspítali er sá staður sem hefur alltaf opið og tekur við öllum hvenær sem er þegar aðrir hafa minnkað sína starfsemi eða lokað,“ segir Björn..