Skjálftahrina varð í suðasturhluta Mýrdalsjökuls á tólfta tímanum í dag. Fyrsti skjálftinn varð kl. 11:15 og mældist hann 2,1 stig. Fimm minni skjálftar fylgdu í kjölfarið en þeir voru flestir um eða minni en eitt stig.
Gunnar Guðmundsson, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að síðasti skjálftinn hafi orðið kl. 11:38. Síðan færðist ró yfir. Það sé því ekkert sem bendi til þess að eitthvað meira sé þarna í gangi. „Það var enginn gosórói sem fylgdi þessu.“
Undanfarnar vikur hefur nokkur virkni mælst í Kötluöskjunni undir jöklinum. Gunnar bendir á að margir katlar séu undir eldstöðinni og það geti verið að skjálftanir tengist aukinni jarðhitavirkni.
„Við erum ekki að boða nein tíðindi,“ segir Gunnar og bætir við að Veðurstofan fylgist vel.
„Það voru settir upp fleiri mælar þarna [á jöklinum] í haust og kannski erum við að sjá fleiri litla skjálfta heldur en við sáum áður,“ segir Gunnar.
Þá bendir hann á að engir skjálftar hafi mælst í eða við Heklu. Hún hafi ekkert hreyft sig.