„Það er ljóst að við byrjum á því strax á morgun að gera bráðabirgðaviðgerð á veginum að brúarstæðinu til þess að gera þetta fært fyrir alla aðdrætti. Það þarf að koma þarna með stálbita og timbur. Það er fyrsta verkið á morgun að safna efni sem verður notað í bráðabirgðabrú,“ segir Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri.
Hann segir veginn sem liggur að brúarstæðinu mikið skemmdan. „Það hefur verið étið heilmikið innundir hann og það má segja að helmingurinn af honum sé ónýtur á löngum kafla vestan megin við brúarstæðið.“
„Svo eru þarna varnargarðar sem eiga að halda vatninu að brúnni sem eru farnir fyrir ofan og neðan brú. Það er allt farið.
Varnargarðana þarf að lagfæra áður en ný brú verður reist. En mun það tefja vinnuna nú ?
„Það verður gert jafnóðum og við gerum bráðabirgðabrú,“ segir Hreinn. „Það þarf hvort sem er að veita vatninu frá sér meðan verið er að byggja brúna og svo undir aftur. Þetta er gert allt á sama tímanum.“
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er á staðnum og hefur kynnt sér aðstæður. Hann segist myndu kjósa þá leið sem fljótlegust sé. En hvaða leið er það?
„Það er bara þetta sem við erum að tala um, bráðbirgðabrú. Við vorum að skoða hvort það væri eitthvað í það að sækja tímalega að nota stöplana sem fyrir eru, undan gömlu brúnni. En í fljótu bragði sýnist okkur að það myndi ekki spara okkur tíma. Það er eitthvað sem verður reynt að ákveða í kvöld,“ segir Hreinn.
Hreinn segir að reynt verði að lagfæra akstursleiðina að Fjallabaki eins og kostur sé. Það sé hins vegar ekki auðvelt að gera hana þannig úr garði að fólksbílar komist þar yfir. Það sé einfaldlega of mikið verk.
„Það er ekki víst að það myndi einu sinni nást á þeim tíma sem tæki að gera bráðabirgðabrúna,“ segir hann.
„En það verður farið sérstaklega til þess að lagfæra og gera þetta fært fyrir annað en stærstu jeppa, þannig að þetta sé tryggt fyrir jeppa eða jepplinga. Það eru fyrst og fremst þessi vöð, sem eru gróf á nokkrum stöðum, sem hindra það að þarna sé hægt að fara á minni bílum. En ef við getum lagfært eitthvað með tiltölulega lítilli vinnu og með það að markmiði að fleiri bílar komist yfir þá náttúrulega gerum við það.“