Fyrsta vindrafstöðin sem tengd er við raforkukerfi landsins verður tekin í notkun í dag. Haraldur Magnússon, bóndi í Belgsholti í Melasveit, reisti vindmylluna.
Sparar hann sér rafmagnskaup og selur umframorkuna inn á landskerfið.
Sigurður Friðleifsson, forstöðumaður Orkuseturs, segir að margir hafi áhuga á að nýta vindorkuna en talsvert vanti upp á að það sé hagkvæmt að jafnaði. Hann telur þetta þó tækifæri sem hægt verði að nýta í framtíðinni. Landsvirkjun tekur þátt í norrænu verkefni þar sem unnið er að athugun á hvaða staðir hér á landi henti fyrir vindorkugarða.