Hlaup hafið í Múlakvísl

Katla í Mýrdalsjökli.
Katla í Mýrdalsjökli. Rax / Ragnar Axelsson

Hlaup er hafið í Múlakvísl, en hlaupið kemur úr kötlum syðst í Mýrdalsjökli.  Gunnar F. Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að mikil brennisteinsfýla fylgi hlaupinu og varasamt sé fyrir fólk að vera nálægt ánni vegna hættulegra gastegunda.

Gunnar segir að enginn gosórói hafi komið fram á mælum og því sé ekkert komið fram enn um að gos sé að hefjast í Kötlu. Vel er hins vegar fylgst með jarðskjálfta- og óróamælum Veðurstofunnar.

Árið 1955 kom hlaup í Múlakvísl og þá fór brúin á þjóðveginum. Gunnar segir líklegt að um sambærilegan atburð sé að ræða. Hann sagði um kl. 1:45 að vatnshæðin við brúna á þjóðveginum vantaði aðeins um einn metra upp í brúargólfið. Stöðugur vöxtur væri í ánni og engin leið að segja til um hvenær hlaupið næði hámarki.

Hlaupið hófst skömmu fyrir miðnætti, en þá sýndu mælar Veðurstofunnar að rafleiðni í Múlakvísl jókst mjög hratt. Einnig hækkaði vatnsborð árinnar hratt og hitastig hækkaði.

Gunnar var spurður hvort hlaup af þessu tagi gæti stuðlað að því að gos hæfist í Kötlu. Hann sagði enga leið að svara því, en lagði áherslu á að engin merki væru komin fram um að gos væri hafið. Hann sagði hins vegar fulla ástæðu fyrir ferðamenn á svæðinu að hafa vara á sér og forðast að vera nálægt Múlakvísl vegna brennisteinsvetnis sem kæmi frá hlaupvatninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert