Hlaup hafið í Múlakvísl

Katla í Mýrdalsjökli.
Katla í Mýrdalsjökli. Rax / Ragnar Axelsson

Hlaup er hafið í Múla­kvísl, en hlaupið kem­ur úr kötl­um syðst í Mýr­dals­jökli.  Gunn­ar F. Guðmunds­son jarðeðlis­fræðing­ur seg­ir að mik­il brenni­steins­fýla fylgi hlaup­inu og vara­samt sé fyr­ir fólk að vera ná­lægt ánni vegna hættu­legra gas­teg­unda.

Gunn­ar seg­ir að eng­inn gosórói hafi komið fram á mæl­um og því sé ekk­ert komið fram enn um að gos sé að hefjast í Kötlu. Vel er hins veg­ar fylgst með jarðskjálfta- og óróa­mæl­um Veður­stof­unn­ar.

Árið 1955 kom hlaup í Múla­kvísl og þá fór brú­in á þjóðveg­in­um. Gunn­ar seg­ir lík­legt að um sam­bæri­leg­an at­b­urð sé að ræða. Hann sagði um kl. 1:45 að vatns­hæðin við brúna á þjóðveg­in­um vantaði aðeins um einn metra upp í brú­argólfið. Stöðugur vöxt­ur væri í ánni og eng­in leið að segja til um hvenær hlaupið næði há­marki.

Hlaupið hófst skömmu fyr­ir miðnætti, en þá sýndu mæl­ar Veður­stof­unn­ar að raf­leiðni í Múla­kvísl jókst mjög hratt. Einnig hækkaði vatns­borð ár­inn­ar hratt og hita­stig hækkaði.

Gunn­ar var spurður hvort hlaup af þessu tagi gæti stuðlað að því að gos hæf­ist í Kötlu. Hann sagði enga leið að svara því, en lagði áherslu á að eng­in merki væru kom­in fram um að gos væri hafið. Hann sagði hins veg­ar fulla ástæðu fyr­ir ferðamenn á svæðinu að hafa vara á sér og forðast að vera ná­lægt Múla­kvísl vegna brenni­steinsvetn­is sem kæmi frá hlaup­vatn­inu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert