Búið er að loka þjóðvegi eitt við brúna yfir Múlakvísl en vegurinn hefur rofnað þar, rétt austan við Höfðabrekku. Hlaup hófst úr Múlakvísl í gærkvöldi en hlaupið kemur úr kötlum syðst í Mýrdalsjökli.
Samhæfingarstöðin almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í Skógarhlíð hefur verið virkjuð og er verið að meta ástandið. Flogið verður yfir Mýrdalsjökul, Kötlu, Múlakvísl og Mýrdalssand nú á sjöunda tímanum. Verið er að efla viðbúnað fyrir austan og lögreglan í umdæminu er við brúna.
Að sögn heimamanna er talin hætta á að rafmagnslínur fari í sundur í flóðinu.
Hlaupið hófst skömmu fyrir miðnætti, en þá sýndu mælar Veðurstofunnar að rafleiðni í Múlakvísl jókst mjög hratt. Einnig hækkaði vatnsborð árinnar hratt og hitastig hækkaði.
Gunnar F. Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að mikil brennisteinsfýla fylgi hlaupinu og varasamt sé fyrir fólk að vera nálægt ánni vegna hættulegra gastegunda. Enginn gosórói hafi komið fram á mælum og því sé ekkert komið fram enn um að gos sé að hefjast í Kötlu. Vel er hins vegar fylgst með jarðskjálfta- og óróamælum Veðurstofunnar.
Gunnar var spurður hvort hlaup af þessu tagi gæti stuðlað að því að gos hæfist í Kötlu. Hann sagði enga leið að svara því, en lagði áherslu á að engin merki væru komin fram um að gos væri hafið. Hann sagði hins vegar fulla ástæðu fyrir ferðamenn á svæðinu að hafa vara á sér og forðast að vera nálægt Múlakvísl vegna brennisteinsvetnis sem kæmi frá hlaupvatninu.