Ísland sýni Palestínu stuðning

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Riad Al Malki, utanríkisráðherra í heimastjórn …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Riad Al Malki, utanríkisráðherra í heimastjórn Palestínumanna.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fundaði í dag með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og lýsti því þar yfir að Íslendingar styðji tveggja ríkja lausn fyrir botni Miðjarðarhafs og að Íslendingar styðji frjálsa og fullvalda Palestínu.

Össur hefur undanfarna daga verið á ferðalagi í og í kringum Palestínu og fundað með ráðamönnum. Í fyrradag átti hann meðal annars fund með Nasser Judeh, utanríkisráðherra Jórdaníu, og lagði þar áherslu á að einangrun Gaza yrði aflétt hið fyrsta.

Palestínumenn hyggjast bera upp tvær tillögur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust. Aðra um almenna viðurkenningu á Palestínu sem ríki, miðað við landamæri þess við Ísrael eins og þau voru árið 1967. Hin tillagan gengur út á það að Palestína verði tekin inn í Sameinuðu þjóðirnar sem nýtt ríki.

„Ég átti langan fund með Abbas forseta í dag, og tveggja manna samningateymi hans,“ sagði Össur í samtali við mbl.is. „Þar lýsti ég því yfir að Íslendingar styddu tveggja ríkja lausn og að þeir styddu frjálsa og fullvalda Palestínu. Ég lýsti því yfir, sennilega fyrstur evrópskra utanríkisráðherra, að Ísland muni styðja báðar tillögurnar þegar þær koma fram í Allsherjarþinginu. Það eru nokkur tíðindi, og þykja mikil tíðindi í Palestínu - mikil gleði og ánægja með það.“

Fór án atbeina Ísraelsmanna

Ferð Össurar nú er farin án atbeina Ísraels, öfugt við það sem vanalegt er. „Ástæðan fyrir því að ég fór ekki í gegnum Ísrael var að ég hafði reynt að fara slíka för, en á síðustu stundu kipttu Ísraelsmenn höndum að sér og sögðust ekki geta tryggt öryggi mitt í þeirri ferð. Ég ákvað því að næst þegar ég reyndi myndi ég gera það án þess að reiða mig á Ísraela,“ sagði Össur.

Hann fór til Gaza í gegnum Egyptaland. Frá Gaza fór hann aftur til Egyptalands og þaðan til Jórdaníu. Þaðan fór hann síðan til herteknu svæðanna í Palestínu. Hann segir aðbúnaðinn á Gaza hafa verið verri en hann átti von á.

„Frá því er skemmst að segja að á Gaza var örbirgð manna, atvinnuleysi og vonleysi með ólíkindum. Staðan var svartari en ég hafði átt von á. Þessi landræma er lukt úr öllum áttum, þannig að það má kalla þetta risastórt fangelsi,“ sagði Össur. „Staðan er mjög erfið þar og erfitt að koma mannúðaraðstoð við.“

Meginþorri fólks þarf að reiða sig á smygl, sem fer í gegnum aragrúa ganga frá Egyptalandi. Talið er að göngin séu um 1500 talsins. Ísraelar meina flutning á nauðsynjavöru yfir landamærin. „Þeir hafa meira að segja verið að fækka landamærastöðvum, þar sem þetta er heimilt, niður í eina - úr fimm,“ sagði Össur.

Hroki þess sem hersetur

„Þegar ég kom til Palestínu, á Vesturbakkanum, sló það mann auðvitað ógnarskelfingu að sjá hvernig þeir hafa reist hér gríðarlanga 8-10 metra háa veggi sem þeir skipta í reynd landinu í sundur og eru með herskáar landnemabyggðir innan þessara veggja og hafa svona varðstöðvar, mannaðar ísraelskum hermönnum,“ sagði Össur.

Á ferð sinni í dag var bílalest Össurar stöðvuð af ísraelskum hermönnum. Ferðalag sem undir eðlilegum kringumstæðum hefði tekið hálftíma tók því þrjár klukkustundir. „Til áhersluauka, af því þetta var nú á vegamótum, ruddu þeir stórum hnullungum í götuna þannig að ekki var hægt að aka fram hjá,“ sagði Össur. „Þeir ráku okkur sem sagt í burtu þó við værum þarna með íslenska merkinu.“ Hann segir hermenninga enga skýringu hafa gefið á athæfinu. „Þeir komu bara fram af hroka þess hersetur. Þeir hafa engar skýringar að gefa.“

Össur segist ekki óttast viðbrögð Ísraelsmanna við ferðatilhögun sinni, né heldur stuðningi við Palestínumenn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hann gerir þó ráð fyrir því að þeir verði „óhressir.“

„Mér er sagt að þeir hafi sent harðorða diplómatíska nótu til eins sendiráðs okkar og mótmælt ferðatilhögun minni. En hún er öll þeim að kenna, því í fyrra skiptið ætlaði ég að fara í gegnum Ísrael og byrja á því að eiga viðræður við forystumenn þar. En það er ekki á það að treysta. Þeir blésu þá ferð af með stuttum fyrirvara. Það er háttur þeirra í svona samskiptum. Þeir tefja og lengja allt eins og þeir geta,“ segir Össur.

Hann segir yfirlýsingu sína um stuðning við Palestínumenn ekki þess valdandi að hann óttist viðbrögð Ísraelsmanna. Hún sé í takti við vilja Íslendinga sem komið hafi fram í skoðanakönnunum.

„Þar að auki er það mín hjartans dýpsta sannfæring að það sé rétt að Íslendingar geri allt sem þeir geta til þess að sýna Palestínumönnum samstöðu. Í því felst ekki að við viljum einangra Ísraelsríki eða koma því út af kortinu, nema síður væri. Við fylgjum tveggja ríkja lausn, að þessi tvö ríki geti búið þarna saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert