Presturinn fékk far með þyrlunni

Nóg var að gera hjá áhöfn þyrlunnar í dag.
Nóg var að gera hjá áhöfn þyrlunnar í dag. mynd/Eric Langlois

Presturinn í Vík fékk í dag far með þyrlu Landhelgisgæslunnar, en presturinn var á leið til jarðarfarar í Prestbakkakirkju en komst ekki akandi eftir að vegurinn fór í sundur.

Landhelgisgæslan segir í tilkynningu að sennilega sé þetta í fyrsta sinn sem prestur í fullum skrúða fer með þyrlunni.

Á sjöunda tímanum í morgun flaug þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF með tvo vísindamenn, frá Raunvísindastofnun og Veðurstofu Íslands yfir Mýrdalsjökul, Kötlu, Múlakvísl og Mýrdalssand. Í Mýrdalsjökli sáust sigkatlar og göt í ísbreiðunni. Enginn gosmökkur var sjáanlegur. Síðan var flogið með vísindamenn til Víkur og lögreglumenn að lokunarstað við Múlakvísl. Flogið var niður Múlakvísl um kl. 09:00 og hafði þá mikið sjatnað í ánni.

Óskað var eftir því að þyrlan myndi sækja 14 franska ferðamenn sem voru fastir á svæðinu, flogið var með þá til Víkur. Þá var óskað eftir að þyrlan myndi fljúga austur að Kirkjubæjarklaustri og fékk presturinn í Vík að fara með.

Þaðan var haldið til Vestmannaeyja til eldsneytistöku þar sem óskað var eftir þyrlunni í leit að bandarísku pari sem var á jöklinum í nótt. Farið var í loftið frá Vestmannaeyjum kl. 11:38. Skömmu áður barst tilkynning um að parið væri fundið og ekki þörf á þyrlunni í verkefni. Þá var flogið til Víkur og vísindamenn sóttir. Var þá flogið tilbaka til Reykjavíkur og lent um kl. 13:00.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert