Sjá sprungur í jöklinum

Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í morgun.
Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

Flugmaður sem flaug yfir Mýrdalsjökul í morgun segir að sigkatlar séu sjáanlegir í Mýrdalsjökli og sprungur hafi myndast í jöklinum.

Jarðvísindamenn flugu yfir Mýrdalsjökul í morgun, en beðið er frétta frá þeim. Veðurstofan heyrði hins vegar í flugmanni í morgun sem flaug yfir jökulinn og sá greinilegar sprungur í sigkötlum syðst í Mýrdalsjökli.

Reynir Ragnarsson lögreglumaður í Vík flaug upp að Mýrdalsjökli snemma í morgun, en hann gat ekki flogið yfir jökulinn vegna þoku. Hann fylgdist hins vegar með flóðinu koma niður Múlakvísl. Um fimm metra alda fór niður ána um kl. 4 í morgun og hreif með sér brúna yfir Múlakvísl.

Hlaupið sem hófst í Skálm í morgun hefur náð hámarki, en vatnshæðin jókst um 66 cm á skömmum tíma um kl. 8 í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert