Ögmundur Jónasson hefur ákveðið að skipa samráðshóp sem hefur það hlutverk að gera tillögur um nýjan veg milli Þorskafjarðar og Skálaness, en ekki hefur náðst samstaða um hvar vegurinn eigi að liggja.
Ögmundur hefur verið á þriggja daga ferðalagi um Vestfirði þar sem hann ræddi við heimamenn um samgöngumál.
Nýi vegurinn er umfangsmesta vegaframkvæmd á Vestfjörðum sem liggur fyrir að fara þarf í. Vegurinn liggur á milli Kollafjarðar og Gufufjarðar en ekki hefur náðst niðurstaða í hvar leggja skuli veginn. Í dag liggur hann meðal annars um tvo erfiða hálsa, Ódrjúgsháls og Hjallaháls og er einn kostur að endurbyggja þá vegi en annar kostur og sá sem Vegagerðin hefur mælt með og sveitarfélög á svæðinu einnig að fara með láglendisveg um utanverðan Þorskafjörð og þvera Djúpafjörð og Gufufjörð. Þessi leið fékk ekki samþykki Skipulagsstofnunar en Vegagerðin kærði þá niðurstöðu og þáverandi umhverfisráðherra heimilaði vegalagninguna. Sá úrskurður var kærður og enduðu þau málaferli með því að Hæstiréttur dæmdi hann ólögmætan.
„Fyrir liggur að ákveða þarf hvernig vegagerð um þetta svæði verður háttað og á fundi í Bjarkalundi síðastliðinn fimmtudag með fulltrúum sveitarstjórna Reykhólahrepps, Vesturbyggðar og Tálknafjarðar ásamt samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga tilkynnti innanríkisráðherra um skipan áðurnefnds samráðshóps til að leggja fram tillögur um málsmeðferð. Í framhaldinu er síðan gert ráð fyrir að framkvæmdin verði sett í samgönguáætlun sem leggja á fyrir Alþingi í haust. Á fundinum í Bjarkalundi lagði ráðherra áherslu á að allir þyrftu að koma að þessu máli með opnum huga og að brýnt væri að fá fram öll sjónarmið og horfa á alla kosti um leiðarval. Samráðsvettvangur myndi leggja fram tillögur en ákvörðun væri Alþingis, álit hópsins hlyti þó að vega þungt,“ segir í frétt frá innanríkisráðuneytinu.