Viðgerð nýtur algjörs forgangs

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, virðir skemmdirnar fyrir sér við Múlakvísl.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, virðir skemmdirnar fyrir sér við Múlakvísl. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vegasamgöngum yfir Múlakvísl verður ekki komið á fyrr en eftir tvær til þrjár vikur hið minnsta, og þá aðeins til bráðabirgða, segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.

Hann fundaði nú undir kvöld með sveitarstjórnarmönnum, Hreini Haraldssyni, vegamálastjóra, Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, og Kjartani Þorkelssyni, sýslumanni og lögreglustjóra á Hvolsvelli. Kjartan stýrir jafnframt almannavörnum á svæðinu.

„Þar voru vegagerðarmenn fyrst og fremst að ráða ráðum sínum um framkvæmdir á komandi dögum,“ segir Ögmundur. „Mér finnst mjög traustvekjandi að fylgjast með því hvað Vegagerðin vinnur fumlaust að þessu máli. Hennar sérfræðingar voru komnir til verka strax í morgun.“

Á fundinum var farið yfir birgðastöðu á svæðinu, þ.e.a.s. birgðir sem notaðar eru til viðgerða líkt og þeim sem nú verður ráðist í. Ögmundur segir stöðuna ekki koma til með að tefja viðgerðir. 

„En sama hversu hratt er unnið er ljóst að það mun taka 2-3 vikur að koma vegasamgöngum í lag, jafnvel þótt til bráðabirgða sé. Það verður ekkert horft fram hjá því að þetta mun náttúrulega raska miklu í samgöngum, alveg sama hvernig að verki er staðið,“ segir Ögmundur.

Ögmundur hefur lýst því yfir, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að þetta mál njóti algjörs forgangs. „Þó að þetta sé kostnaðarsamt verk er miklu kostnaðarmeira, að koma samgöngum ekki í samt lag. Þetta hefur gríðarlega áhrif á samfélag og fyrirtæki og sérstaklega ferðaþjónustuna á háannatímanum.“

Hafist verður handa við viðgerð á morgun, en mikill vatnsflaumur gerir vinnuna erfiða. Stöðugt hefur þó dregið úr honum í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert