Bygging brúar að hefjast

Innanríkisráðherra, fjármálaráðherra, vegamálastjóri og embættismenn við Múlakvísl.
Innanríkisráðherra, fjármálaráðherra, vegamálastjóri og embættismenn við Múlakvísl. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vegagerðin hóf í dag viðgerð á veginum vestan við Múlakvísl og smíði bráðabirgðabrúar til að koma á vegasambandi um Hringveginn. Á morgun verður byrjað að aka að efni í brúna. Stefnt er að því að opna leiðina undir lok mánaðarins.

Þetta kemur fram í frétt frá innanríkisráðuneytinu. Vegagerðin hóf þegar í gærmorgun hönnun bráðabirgðabrúar sem ráðgert er að verði ofan við brúna sem fór í hlaupinu. Hún verður rúmlega 100 metra löng. Vegagerðin á efni í brúna í birgðastöð sinni á Selfossi en það eru bæði stálbitar og timbur sem geymt hefur verið þegar eldri brýr hafa verið rifnar.

Kallaðir úr fríi

Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar munu annast verkið en margir starfsmanna hans hófu einmitt sumarfrí um helgina og hafa verið kallaðir til starfa á ný. Í dag hefst lagfæring á veginum vestan Múlakvíslar til að hægt sé að koma að efni. Þá verður einnig hafist handa við að ýta upp vegi við brúarstæðið og huga að því hvernig ánni verður stýrt meðan smíðin fer fram.

Í fyrsta áfanga verða reknir niður tréstaurar sem brúin mun hvíla á, síðan smíðaðar timburgrindur ofan á þá þar sem leggjast yfir stálbitar og loks verður brúargólfið lagt úr timbri. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að í dag verði staðsetning brúarinnar ákveðin og segir hann bjartsýna spá telja að verkið geti tekið tvær til þrjár vikur.

Í dag mun Kjartan Þorkelsson funda með almannavarnarnefnd og verður þar meðal annars hugað að því hvernig háttað verður eftirliti og aðstoð við þá sem aka Fjallabaksveg nyrðri. Einnig hugar Vegagerðin að því að lagfæra leiðina milli Landmannalauga og Hringvegarins við Hunkubakka en vegfarendur eru varaðir við því að fara þessa leið nema á góðum bílum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert