„Finnst þetta með ólíkindum“

Jóhannes Kristjánsson á Höfðabrekku.
Jóhannes Kristjánsson á Höfðabrekku. mbl.is/GSH

Ferðaþjónustuaðilar eru afar uggandi um sinn hag vegna þess að þjóðvegur 1 er rofinn. Hótelhaldari í Mýrdalshreppi segir að um áhugaleysi stjórnvalda sé að ræða og furðar sig á því hversu langan tíma gerð bráðabirgðabrúar á að taka.

Jóhannes Kristjánsson hótelhaldari á Hótel Höfðabrekku, sem er austan við Vík, segir það bera vott um áhugaleysi stjórnvalda, að bygging bráðabirgðabrúar eigi að taka 2-3 vikur, eins og fram hefur komið.

„Mér finnst þetta með ólíkindum á þessari öld þegar menn eru að skreppa til tunglsins og það er líka með ólíkindum að það sé ekki þegar byrjað á framkvæmdum,“ sagði Jóhannes í samtali við mbl.is.

„Ég trúi því ekki með allri þessari tækni og öllu þessu menntaða fólki að þetta þurfi að taka svona langan tíma.“

Jóhannes segir að nú sé háannatíminn, mikið hafi verið bókað á hótelinu, en nú hafi starfsfólkið vart undan við að svara símtölum um afbókanir og breytingar á pöntunum.

„Daginn áður en hlaupið varð, þá vorum við með 150 manns í mat. Daginn eftir vorum við með 14 manns.“

Á hótelinu að Höfðabrekku er gistirými fyrir 140 manns og var mikið búið að bóka þar. „Ég veit hreinlega ekki hvað gerist ef vegurinn verður lokaður í 2-3 vikur, eins og menn hafa verið að lýsa yfir. Auðvitað verða þá erfiðleikar í rekstrinum, en ég hef meiri áhyggjur af þeim sem eru nýbyrjaðir í þessum rekstri.“

„Þetta er háannatíminn og þjóðvegur 1 er lokaður. Svo virðist sem sumum þyki það í besta lagi og það er það alvarlega við þetta allt saman.“


Hótel Höfðabrekka.
Hótel Höfðabrekka. mbl.is/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka