Vísindamenn telja að hlaupinu í Múlakvísl sé lokið. Áfram verður unnið á óvissustigi þar sem viðbragð Almannavarna er enn í fullum gangi. Ákveðið var minnka hættusvæðið á Mýrdalsjökli þannig að heimilt er að fara um suðvestur hluta jökulsins.
Þetta kom fram á stöðufundi í Samhæfingarstöðinni í dag. Mörk bannsvæðisins verða endurskoðuð um leið og tekist hefur að skoða yfirborð jökulsins nánar og meta aðstæður. Flogið verður yfir jökulinn til að kanna aðstæður svo fljótt sem auðið er.
Í tilkynningu frá Samhæfingarmiðstöð segir að Vegagerðin vinni hörðum höndum að því að koma á vegasambandi aftur. Unnið verði allan sólarhringinn. „Verið er að kanna ýmsa möguleika í þeim efnum. Fjöldi fólks hefur verið kallaður úr sumarleyfum til að vinna það verk. Sérleyfisbifreiðar til Hafnar í Hornafirði aka um Fjallabak nyrðra þar til vegurinn yfir Múlakvísl hefur verið lagfærður.
Rétt er að benda á að fært er um Fjallabak nyrðra en þó aðeins fyrir jeppa og stærri bíla. Leiðin er ekki fær fjórhjóladrifnum fólksbílum. Löggæsla á svæðinu verður efld svo og hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landbjargar,“ segir í tilkynningunni.