Árni Þór Árnason sundkappi neyddist til að hætta sundi eftir að hafa synt 36,5 kílómetra í Ermarsundi. Hann synti í tæplega 10 klukkutíma.
Axlarmeiðsl og miklir straumar neyddu hann til að taka þessa ákvörðun í samráði við skipstjórann og atstoðarmenn sína um borð. Árni hafði þá synt í nákvæmlega 9 klukkutíma og 33 mínútur og lagt að baki 36,5 kílómetra. Árni var að öðru leyti í mjög góðu ásigkomulagi þegar hann kom um borð og vildi hann skila þakklæti til allra sem hafa fylgst með og veitt sér stuðning í þessu krefjandi verkefni.
Árni fór að finna fyrir verk í öxl í morgun og upp úr hádegi var staðan orðin þannig að hann gat ekki beitt vinstri hendinni nema að litlu leyti. Hann ákvað engu að síður að halda áfram og sjá aðeins til. Þegar óhagstæðir straumar bættust við erfiðleikana ákvað hann í samráði við félaga sína að hætta sundinu.