Ætla að selflytja fólk yfir

Byrjað var að vinna við Múlakvísl í morgun.
Byrjað var að vinna við Múlakvísl í morgun. mbl.is/Jónas

Innanríkisráðuneytið segir, að verið sé að undirbúa að selflytja fólk, bíla og varning yfir Múlakvísl þar sem brúin fór í hlaupi aðfaranótt laugardags. Innanríkisráðuneytið  hefur falið Vegagerðinni að ganga frá samningum um slíka flutninga.

Ráðuneytið segir, að einnig sé verið að ganga frá merkingum og leiðbeiningum varðandi lokun Hringvegarins.

Á meðan Hringvegurinn er lokaður við Múlakvísl geta jeppar, jepplingar, rútur og vörubílar af ákveðinni gerð ekið um Fjallabaksleið nyrðri milli byggðarlaga á Suðurlandi. 

Viðgerð á veginum er hafin, verið er að ýta upp vegi að nýju brúarstæði og efni í bráðabirgðabrú er til og er því nú ekið á staðinn. Áætlað er að smíði bráðabirgðabrúar taki tvær til þrjár vikur en hugsanlega miðar verkinu betur enda unnið á sólarhringsvöktum.

Innanríkisráðuneytið segist deila áhyggjum Samtaka ferðaþjónustunnar af lokun Hringvegarins og vitaskuld væri hentugast ef leiðin opnast í dag eða á morgun. Það sé hins vegar ekki raunhæft og mikilvægt sé að allrar sanngirni sé gætt og að allir sameinist um að leita lausna. Stjórnvöld vinni að því að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að opna leið yfir Múlakvísl sem allra fyrst, eins og segi í yfirlýsingu SAF.

„Ferðaþjónusta er viðkvæmur rekstur og þegar truflanir verða á samgöngum vegna náttúruhamfara og flóða bitnar það á ferðaþjónustu, flutningafyrirtækjunum, landbúnaði og einstaklingum. Við aðstæður sem þessar þurfa allir aðilar að beita ítrustu útsjónarsemi til að lágmarka tjón og truflun og leita leiða til lausna," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert