Stór sérútbúinn trukkur er kominn að Múlakvísl og á að nota hann til að ferja fólk yfir ána. Nokkuð hefur vaxið í Múlakvísl í dag en búist er við að sjatni í ánni síðdegis þegar kólnar í veðri. Því er áætlað að hefja fólksflutningana klukkan 15 en það gæti þó tafist.
Tæki frá verktakafyrirtækinu Suðurverki eru nú að moka jarðvegi upp að veginum við Múlakvísl til að styrkja hann en vatnið gróf úr bökkunum þegar hlaupið kom í ána á laugardagsmorgun.
Trukkurinn, sem nota á til fólksflutninganna, er af Iveco-gerð, árgerð 1981 og tekur 40 farþega. Fjórir slíkir bílar eru til í heiminum, þar af einn á Íslandi, að sögn Björns Sigurðssonar í Eyjafirði, en hann sér um að gera bílinn út.
Eigandinn, Ágúst Guðjónsson, býr á Hólmavík og þar hefur bíllinn verið í vetur enda nóg að gera fyrir vestan vegna mikilla snjóa og ófærðar.
Þá verða tvær sérútbúnar vörubifreiðir notaðar til að flytja bíla yfir Múlakvísl. Björgunarsveitarmenn og lögreglan munu fylgjast með þessum ferðum og vakta svæðið.
Selflutningarnir munu standa yfir frá klukkan 8 á morgnana til klukkan 16 daglega. Einnig vinnur Vegagerðin að því að bæta allar merkingar, sérstaklega með erlenda ferðamenn í huga. Þá mun Vegagerðin efla vefsíðu sína á ensku og íslensku um ástand vega á svæðinu, og verður hún uppfærð reglulega.
Bílaleigur hafa sett upp nýjar skiptistöðvar í umdæminu til að auðvelda ferðamönnum að komast leiðar sinnar. Almannavarnir, Vegagerðin, Ferðamálastofa munu hitta ferðaþjónustuaðila í Vík á fundi klukkan 17 í dag og á Klaustri klukkan 20 og fara yfir stöðuna.
Vísindamenn flugu yfir Mýrdalsjökul í dag og þar eru engar sjáanlegar breytingar frá því á laugardag þegar síðast var flogið yfir jökulinn.