„[T]raustvekjandi [var] að fylgjast með fumlausum og markvissum viðbrögðum Vegagerðarinnar strax og fréttir bárust af því að hringvegurinn hefði rofnað við hlaup í Múlakvísl,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í pistli á vefsvæði sínu. Hann segir gagnrýni á Vegagerðina undantekningu frá reglunni.
Ögmundur bendir á að að kallaðir hafi verið út menn úr sumarfríi, hvort sem þeir voru voru í hestaferð, sólarlandaferð eða annars staðar. „Þá var athyglisvert að sjá að í birgðastöðvum Vegagerðarinnar er að finna stálbita og annað byggingarefni sem sérstaklega hefur verið haldið til haga til að grípa til við aðstæður sem þessar.“
Þá vísar Ögmundur til fréttatilkynningar innanríkisráðuneytis þar sem gagnrýni á Vegagerðina er svarað. „Sú gagnrýni er hins vegar undantekningin frá reglunni því í mín eyru ljúka flestir - og allir sem til þekkja - upp lofsorði á framgöngu Vegagerðarinnar. Ýmsir vildu sjá gröfur að verki frá fyrstu mínútu. Miklu meira er hins vegar um vert að framkvæmdaaðilar leggi skipulega niður fyrir sér hvernig vinna eigi verkið og síðan sé framkvæmt. Þá rís brú sem heldur. Öfug röð er ekki vænleg til árangurs.“