Jóhanna fundaði með Merkel

Angela Merkel og Jóhanna Sigurðardóttir kanna heiðursvörð við þinghúsið í …
Angela Merkel og Jóhanna Sigurðardóttir kanna heiðursvörð við þinghúsið í Berlín í morgun. Reuters

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er nú stödd í opinberri heimsókn í Þýskalandi í boði Angelu Merkel, kanslara landsins. Þær funduðu í morgun í Berlín og ræddu síðan við blaðamenn að því loknu.

Jóhanna bauð Merkel í heimsókn til Íslands sem fyrst.

Merkel var á blaðamannafundinum einkum spurð um stöðu efnahagsmála á Ítalíu en áhyggjur hafa aukist af því að landið kunni að lenda í erfiðleikum með að standa skil á afborgunum af lánum sínum.

Hefur Merkel hvatt ítalska þingið til þess að samþykkja áform þarlendra stjórnvalda um aðhaldsaðgerðir til þess að reyna að forða því.

„Ísland er gott dæmi um það, þegar víðtækar endurbætur leiða hratt til góðrar niðurstöðu," sagði Merkel á blaðamannafundinum.  

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu ræddu þær Jóhanna og Merkel meðal annars um samningaviðræður Íslands um aðild að Evrópusambandinu, orkumál og norðurslóðamál. Einnig hafi sérstaklega verið rætt um menningarsamskipti ríkjanna, en Ísland verður heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt í október næstkomandi og muni nálægt 180 íslenskar bækur og bækur um Ísland, koma út á þýsku af þessu tilefni. 

Á blaðamannafundinum lýsti Jóhanna ánægju sinni með, að Þýskaland hefði sett sér skýra stefnu í orkumálum og hygðist auka hlut endurnýjanlegrar orku. Hún  þakkaði fyrir hvatningarorð kanslarans varðandi árangurinn sem náðst hefði á Íslandi í efnhagsmálum og stuðning Þýskalands í aðildarviðræðuferlinu.

Þá sagði Jóhanna, að Ísland væri stolt og þakklátt fyrir að vera í heiðurssessi á bókamessunni í Frankfurt, fyrst norrænu ríkjanna. Aukinn áhugi á menningu og sögu Íslands væri þakkarverður og aukin samskipti myndu efla enn frekar vinarþelið milli þjóðanna. 

Jóhanna Sigurðardóttir og Angela Merkel í Berlín í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir og Angela Merkel í Berlín í dag. Reuters
Angela Merkel og Jóhanna Sigurðaradóttir.
Angela Merkel og Jóhanna Sigurðaradóttir. Reuters
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert