Senda ráðherra neyðarkall

mbl.is/Jónas Erlendsson

Ferðaþjónustuaðilar í Skaftárhreppi hafa sent Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, bréf þar sem lýst er miklum áhyggjum af lokun þjóðvegar eitt við Múlakvísl og þeim óþægindum sem það kann að valda ferðamönnum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Er bréfið

„Á þessum tíma árs er gistirými nær fullbókað á landinu öllu og verður því neyðarástand þegar eðlilegt flæði umferðar um hringveginn rofnar. Einnig höfum við áhyggjur af neyðarflutningum af svæðinu ef til frekari hamfara skildi koma þar sem flóttaleiðir eru illfærar eins og staðan er í dag,“ segir í bréfinu.

Fram kemur að undirritaðir ferðaþjónustuaðilar í Skaftárhreppi fari þess á leit við íslensk yfirvöld að þau beiti sér fyrir því að vinna fari af stað án tafar við nauðsynlegar framkvæmdir til þess að koma umferð um svæðið í lag og eru lagðar til ákveðnar leiðir í þeim efnum meðal annars að unnið verði allan sólarhringinn að bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl.

„Eftir allt sem yfir okkur, rekstaraðila ferðaþjónustu, hefur dunið undanfarið ár með tveimur eldgosum og nú síðast hlaupi í Múlakvísl, teljum við að þolmörkum okkar sé náð og setjum fram skýlausa kröfu um að unnið verði að lausn og að þjóðvegur nr 1 verði opnaður við fyrsta tækifæri,“ segir í bréfinu.

Umferð verði komin á um helgina

Þá hafa sveitarstjórnir Skaftárhrepps og Mýrdalshrepps, sveitarfélaganna sitt hvoru megin við Múlakvísl, einnig sent innanríkisráðherra bréf þar sem krafist er tafarlausra aðgerða. Farið er meðal annars fram á að björgunarþyrla verði á svæðinu á meðan sjúkrabílar geta ekki komist leiðar sinnar og að opnað verði fyrir umferð ekki síðar en næsta laugardag.

„Í ljósi þeirra miklu áfalla sem dunið hafa yfir samfélögin á undanförnum mánuðum af völdum náttúruhamfara, nú síðast hlaupið í Múlakvísl sem lokar hringveginum um óákveðin tíma, skora sveitarstjórnirnar á samgönguyfirvöld að ráðast nú þegar í úrbætur svo vegurinn verði opnaður eða bílar ferjaðir yfir á allra næstu dögum. Slíkt var gert fyrir 50 árum og hlýtur að vera mögulegt með nútíma tækjakosti á 21 öldinni,“ segir í tilkynningu sveitarstjórnanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert