Skráð atvinnuleysi í júní 2011 var 6,7% en var 7,4% í maí og 8,1% í apríl. Að meðaltali voru 11.704 manns atvinnulausir í júnímánuði og fækkaði atvinnulausum um 849 að meðaltali frá maí eða um 0,7 prósentustig.
Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 675 að meðaltali en konum um 174. Var atvinnuleysið 6,8% meðal karla og 6,7% meðal kvenna. Atvinnuleysið hefur lækkað hraðar meðal karla en kvenna síðustu mánuði, var 7,7% meðal karla í maí og 8,6% í apríl, en meðal kvenna var atvinnuleysið 7,1% í maí og 7,4% í apríl.
Atvinnulausum fækkaði um 483 á landsbyggðinni milli maí og júní en 366 á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysið var 7,6% á höfuðborgarsvæðinu en 5,1% á landsbyggðinni. Atvinnuleysið hefur minnkað meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu síðustu mánuði. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 10,6%, en minnst á Norðurlandi vestra 2,3%.
Alls voru 12.424 manns atvinnulausir í lok júní. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 10.559 af þeim voru 1.724 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í ráðgjafarviðtöl, á kynningarfundi og í vinnumiðlun.
Fækkun atvinnulausra í lok júnímánaðar frá lokum maí nam 872 en 652 færri karlar voru á skrá og 220 færri konur m.v. maílok. Á landsbyggðinni fækkaði um 450 og um 422 á höfuðborgarsvæðinu.
Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 7.581 og fækkar um 412 frá lokum maí og er um 61% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok júní. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4.725 í lok maí í 4.609 í lok júní.
Færri ungmenni án atvinnu
Alls voru 2.032 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok júní en 2.305 í lok maí eða um 16% allra atvinnulausra í júní og fækkar um 273 frá því í lok maí. Í lok júní 2010 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 2.438.
Alls voru 349 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok júní, mest þjónustu, sölu og afgreiðslusstörf eða alls 114 og fjölgar um 46.
Alls voru 1.932 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok júní, þar af 1.142 Pólverjar eða um 59% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 417.
Í júlí 2010 var atvinnuleysi 7,5%, en 7,6% í júní 2010. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í júlí 2011 breytist lítið og verði á bilinu 6,5 % - 6,9 %.