Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem það er áréttað að Fjallabaksleið nyrðri sé ófullkominn hálendisvegur, mjór og hlykkjóttur malarvegur sem ekki er gerður fyrir þá miklu umferð sem nú fer þar um.
Hraðakstur getur skapað mikla slysahættu og er fólk eindregið hvatt til að sýna ábyrgð og varkárni er það ekur þessa leið. Ekki er mælt með syðri leiðinni, F210 nema fyrir nokkuð stóra jeppa.
Vinna er þegar hafin við að koma upp bráðabirgðabrú á Múlakvísl. Áætlað er að það geti tekið 2 til 3 vikur.
Dómadalsleið, F225, er lokuð á kafla en hjáleið er framhjá lokuninni, sem lengir leiðina um 3,5 km. Lokunin mun vara til 18. júlí. Allur akstur er enn bannaður á Sprengisandi norðan Nýjadals. Einnig er Dyngjufjallaleið, vegur 910, lokaður milli Nýjadals og Öskju. Sömuleiðis er enn akstursbann á miðhluta Arnarvatnsheiðar, milli Norðlingafljóts og Arnarvatns stóra.