Lokað yfir Múlakvísl til 18

Rútan á kafi í Múlakvísl. 19 manns var bjargað eftir …
Rútan á kafi í Múlakvísl. 19 manns var bjargað eftir að bíllinn festist í ánni. mynd/ Bárður Einarsson

Leiðin yfir Múlakvísl verður lokuð til klukkan 18  í dag. Lögreglan og Vegagerðin ætla að meta aðstæður áður en ákveðið verður með framhaldið, að sögn Sveins K. Rúnarssonar yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli.

Sveinn sagði að 19 manns  hafi verið í rútunni sem festist í ánni að meðtöldum bílstjóra. Sveinn sagði að fólkinu hafi reitt vel af. Einn fékk þó minniháttar rispur. 

„Þau eru blaut eftir volkið og skelkuð,“ sagði Sveinn. Hann sagði að læknir sé á staðnum og fólkinu boðið að koma á fjöldahjálparstöð til aðhlynningar. Fjöldahjálparstöðvar eru bæði á Kirkjubæjarklaustri og í Vík.

Sjúkrabílar eru til taks við Múlakvísl til öryggis. 

Tryggingar á bílum og fólki

Sjóvá sendi út tilkynningu vegna flutninga á ökutækjum og fólki yfir Múlakvísl. Þar kemur fram að sé ökutæki kaskótryggt hjá Sjóvá þá er félagið bótaskylt ef tjón verður á ökutækinu við flutninginn.

Ef flutningstæki er tryggt lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá eru farþegar vátryggðir ef óhapp verður við akstur yfir ána.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert