Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók í liðinni viku þátt í umræðum á sumarfundi Norræna ráðherraráðsins í Finnlandi. Ráðherrar Norðurlanda ræddu sjálfbæra nýtingu og verndun náttúruauðlinda.
Í því samhengi kom til umræðu viðskiptabann ESB á selaafurðir sem bitnar hart á Grænlendingum þar sem selurinn er mikilvægur nytjastofn. Enn fremur lýstu menn áhyggjum af mikilli fjölgun sela í Eystrasaltinu og fram kom áhugi á að ESB breytti stefnu sinni varðandi viðskipti með selaafurðir.
Þá kom umsókn Íslands að ESB til umræðu og gerði ráðherra þar grein fyrir sérstöðu Íslands varðandi sjávarútveg, landbúnað og matvælaöryggi. Ráðherra vék einnig að stöðu viðræðna í þessum málaflokki.
Af öðrum málum sem komu til umræðu og snerta Ísland sérstaklega má nefna makrílveiðar þjóðanna. Þar fór sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra yfir réttindi hlutaðeigandi strandríkja og skyldu þeirra að ná samkomulagi með tilliti til sjálfbærrar nýtingar.