Spyr hvort Merkel viti meira en Íslendingar

Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra. mbl.is/Rax

„Samkvæmt þessu er Angela Merkel betur að sér um stöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart ESB en Íslendingar. Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt nein samningsmarkmið opinberlega. Hvaða markmið kynnti Jóhanna?“ spyr Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni.

Þar vitnar hann til fréttar Ríkisútvarpsins frá í gær þar sem kom fram að eitt helsta markmið opinberrar heimsóknar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, til Þýskalands í gær hafi verið að kynna þýska kanslaranum samningsmarkmið Íslands í viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið.

„Stefán Haukur Jóhannesson, formaður íslensku viðræðunefndarinnar, hefur sagt að samningsmarkmið verði mótuð eftir hendinni af nefnd sinni. Í þeim orðum felst að nefndin ætli að gæta þess að ekki slitni upp úr viðræðunum heldur takist sameiginlega að setja orð á blað sem síðan verði borin undir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eina markmið íslensku nefndarinnar og vissulega má kalla það samningsmarkmið. Var það þetta markmið sem Jóhanna kynnti fyrir Merkel?“ segir Björn.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert