Um 100 manns hefur nýtt sér þjónustu útleigustöðva sem Bílaleiga Akureyrar kom upp eftir að vegurinn yfir Múlakvísl rofnaði.
Bílaleiga Akureyrar ákvað að opna tímabundið tvær útleigustöðvar, annars vegar á Kirkjubæjarklaustri og hins vegar í Hrauneyjum. Boðið er upp á rútuferðir á milli þessara tveggja staða um Fjallabaksleið nyrðri tvisvar á dag, klukkan 10:30 og 15:30 og er farið frá hvorum stað samtímis. Með þessu móti geta viðskiptavinir bílaleigunnar skilað bílum sínum á öðrum hvorum staðnum, tekið rútuna og fengið nýjan bíl þegar komið er á leiðarenda.
Þessi þjónusta verður í boði viðskiptavina fyrirtækisins þeim að kostnaðarlausu þangað til bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl verður tekin í gagnið.