Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 38 ára gamlan karlmann í 2 ára skilorðsbundið fangelsi fyrir fjölda afbrota, aðallega innbrot og þjófnaði. Skilorðið er háð því að maðurinn hefji meðferð vegna áfengis- og lyfjaneyslu innan viku.
24 ára gömul kona, sem tók þátt í sumum afbrotunum, var dæmd í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi en hún hefur ekki komist í kast við lögin áður.
Maðurinn á að baki sakarferil frá árinu 1990 og hefur hlotið fjölda dóma, þar á meðal fyrir ránstilraun.
Í málinu nú var hann sakfelldur fyrir 13 þjófnaðarbrot og tilraun til þjófnaðar auk annarra brota. Segir í dómnum að maðurinn hafi sýnt af sér einbeittan ásetning en brotahrinan hófst nánast um leið og hann lauk við að afplána eftirstöðvar eldri dóms.
Fram kemur að verjandi mannsins hafi lagt það til, að skoðað yrði hvort ástæða væri til að dæma manninn í skilorðsbundna refsingu bundna því skilyrði að honum verði gert að dvelja á hæli í tiltekinn tíma til að venja hann af neyslu áfengis eða deyfilyfja.Sálfræðingur taldi að slíkt úrræði kynni að duga.