Hlaup virðist vera hafið undan Köldukvíslarjökli í Vatnajökli vestanverðum. Landsvirkjun hefur mælt um 70 sentimetra hækkun í Hágöngulóni frá miðnætti.
Uppfært kl. 11.30
Hjörleifur Sveinbjörnsson, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði að enginn hafi enn séð til hlaupsins. Hræringar komu fram m.a. á óróamælum á Skrokköldu og Grímsfjalli sem svipaði til óróans sem sást í Mýrdalsjökli fyrir hlaupið í Múlakvísl á dögunum.
„Það virðist vera hlaup að koma niður í Hágöngulón,“ sagði Hjörleifur. Hann sagði að svo virðist sem eitthvað hafi gerst undir Lokahrygg. Slæmt skyggni er á þessu svæði nú og ekki verið mögulegt að fljúga þarna yfir. Þá hafa ekki mælst neinir jarðskjálftar sem hefðu getað gefið til kynna með óyggjandi hætti upptök hlaupsins.
Kaldakvísl rennur úr Köldukvíslarjökli og virðist sem hlaupvatnið komi þar niður.
Hjörleifur sagði hlaup á þessum slóðum vera fáheyrð. Aukin skjálftavirkni hefur verið undir Hamrinum undanfarna mánuði en engin ummerki hafa sést á yfirborðinu, nýir katlar eða annað slíkt.Vísbendingar eru um að jarðhitasvæði sé þarna undir núna.
Tilkynning frá Veðurstofu Íslands klukkan 11.30
„Um klukkan 7 í gærmorgun mældist órói á jarðskjálftamælum við vestanverðan Vatnajökul. Óróinn stóð yfir í um 45 mínútur. Annar svipaður atburður mældist á tímabilinu frá því um 13:15 í gær til klukkan 14:15. Óróinn líktist því sem mælist vegna vatnsflóða undan jökli (jökulhlaupa).
Um klukkan 18 sást óróinn á ný og fór nú hægt vaxandi fram yfir miðnætti, en um klukkan 00:30 var farið að draga úr honum aftur.
Engar breytingar mældust í ám í kringum vestanverðan Vatnajökul í nótt, en komið hefur í ljós um 70 sentimetra hækkun á vatnsborði Hágöngulóns frá því á miðnætti.“