Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var óheimilt að miðla upplýsingum úr málaskrá um umsækjanda skotvopnaleyfis til læknis, samkvæmt úrskurði Persónuverndar.
Samkvæmt kvörtun umsækjandans til Persónuverndar voru upplýsingar úr málaskrá lögreglunnar senda lækni án hans samþykkis. Læknirinn, sem er geðlæknir, átti að meta hæfni umsækjandans til að eiga skotvopn. Umsækjandinn kvaðst aldrei hafa samþykkt miðlun upplýsinga úr málaskránni.
Í svari lögreglunnar til Persónuverndar segir m.a. að kannað hafi verið í málaskrá lögreglunnar hvort þar væri eitthvað sem mælti gegn því að maðurinn fengi endurnýjað skotvopnaleyfi.
„Kom þá í ljós að í málaskrá voru skráð nokkur tilvik þar sem kærandi hafði misst stjórn á skapi sínu með þeim hætti að lögregla hafði verið kölluð til. Kvartandi var upplýstur um þessar bókanir og ennfremur að vegna þeirra væri ekki hægt að afgreiða umsókn hans að svo stöddu. Í framhaldinu var kæranda síðan tilkynnt skriflega að til greina kæmi að hafna umsókn hans með vísan til umræddra bókana í málaskrá.
Var óskað eftir að áður en ákvörðunin yrði tekin legði hann fram vottorð sérfræðings í geðlækningum þar sem lagt yrði mat á hvort hann uppfyllti skilyrði vopnalaga um andlegt heilbrigði, meðal annars með hliðsjón af þeim tilvikum sem skráð eru í málaskrá lögreglu,“ segir í svari lögreglunnar.