Öllum héraðsdýralæknum landsins hefur verið sagt upp frá og með 1. nóvember næstkomandi. Þá verða lagðar niður ellefu og hálf staða héraðsdýralækna í dreifbýli og í staðinn koma þrjár nýjar stöður dýralækna sem eingöngu sinna eftirlitsþjónustu.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Rúnar Gíslason, héraðsdýralæknir á Snæfellsnesi, að með breyttum lögum verði gott kerfi eyðilagt.
Hann segir að enginn viti hvernig ríkisvaldið ætli að tryggja dýralæknisþjónustu í hinum dreifðu byggðum og er ósáttur við það. Hann segir ennfremur að nýtt kerfi verði mun dýrara þar sem fámennið sé mikið og vegalengdir langar.