„Þetta er ástæðan fyrir því að við sjáum ekki lengur samanburðarkannanir á verði á matvörum erlendis og hér heima. Þetta er eitthvað sem Margrét og Andrés hefðu getað tékkað á með þokkalegri tölvu og nettengingu,“ segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni í dag.
Þar vísar hún til greinar sem Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, og Margrét Kristmannsdóttir, formaður samtakanna, rituðu í Fréttablaðið í gær þar sem fram komi að Íslendingar búi við eitt dýrasta landbúnaðarkerfi í heimi og íslenskir neytendur við eitt hæsta verð á landbúnaðarvörum í heimi.
Eygló birtir á heimasíðu sinni lauslegan samanburð á mjólk, eggjum og smjöri annars vegar í Vöruvali í Vestmannaeyjum, hverfisverslun hennar, og hins vegar Sainsbury's í Bretlandi. Niðurstaða hennar er að verðlag hér á landi sé lægra í þeim samanburði.
Heimasíða Eyglóar Harðardóttur