Fagna úttekt Ríkisendurskoðunar

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Læknaráð FSA fagnar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri. Úttektin var gerð í kjölfar ályktunar sem læknaráð FSA sendi frá sér í október 2010.

Læknaráð telur að skýrslan endurómi þær áhyggjur sem fram hafa komið á fjölmörgum læknaráðsfundum undanfarin ár. Þar ber hæst skortur á stefnu og framtíðarsýn, gagnrýni á vinnubrögð framkvæmdastjórnar og áhyggjur vegna viðvarandi skorts á sérfræðilæknum á mörgum deildum. Þetta kemur fram í ályktun sem ráðið hefur sent frá sér.

„Í kjölfar skýrslunnar hefur ný framkvæmdastjórn ýtt úr vör vinnu við framtíðarsýn og nýtt skipurit sjúkrahússins. Sú vinna fer vel af stað og lofar góðu. Mikilvægt er að læknar spítalans taki virkan þátt í því verkefni. Læknaráð telur að merkja megi breytt og betri vinnubrögð framkvæmdastjórnar spítalans hvað upplýsingagjöf og tengsl við starfsfólk, skjólstæðinga og nánasta umhverfi varðar.

Mönnun sérfræðilækna á Íslandi verður ekki tryggð nema kaup, kjör og vinnuaðstaða séu samkeppnishæf við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Kjör lækna á FSA þurfa að vera samkeppnishæf við þau kjör sem bjóðast á höfuðborgarsvæðinu.

Læknaráð telur brýnt að full mönnun sérfræðinga við spítalann verði tryggð. Sú vinna er sífellt í gangi. Margt hefur áunnist en læknaráð mun óska eftir því við framkvæmdastjórn að fulltrúar þess og framkvæmdastjórnar komi saman að ráðningamálum með formlegum hætti," segir ennfremur í ályktun læknaráðs FSA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert