Fréttaskýring: Fjölbreyttara mannlíf

Ólafsfjörður var endastöð en er orðinn hluti af stærri heild …
Ólafsfjörður var endastöð en er orðinn hluti af stærri heild með Héðinsfjarðargöngum og sameiningu við Siglufjörð. mbl.is/Sigurður

Samgöngubætur hafa skapað tækifæri fyrir íbúa Siglufjarðar og Ólafsfjarðar til að snúa vörn í sókn. Tekið er myndarlega á móti þeim mörgu ferðamönnum sem þangað leggja leið sína. Þá er mannlífið orðið fjölbreyttara og áhugaverðara þegar íbúar þessara tveggja staða auka samskipti sín og tengsl við Eyjafjarðarsvæðið.

Siglufjörður og Ólafsfjörður hafa verið í mikilli varnarbaráttu á undanförnum árum og áratugum. Samdráttur í sjávarútvegi hefur haft sín áhrif. Íbúunum hefur fækkað um fjórðung á þrettán árum. Þannig voru íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar liðlega 2.700 á árinu 1998 en nú eru íbúar Fjallabyggðar 700 færri, eða liðlega 2.000. Siglufjörður er stærri staðurinn með um 1.200 íbúa en 820 búa á Ólafsfirði.

Báðir staðirnir voru á endastöð samgangna. Því má líkja Héðinsfjarðargöngum, því mikla mannvirki sem tengdi firðina saman síðastliðið haust, við byltingu í samgöngum.

Auðveldara að eignast félaga

Báðir staðirnir voru með eitt af öllu, svo sem bæjarskrifstofur, grunnskóla, leikskóla, íþróttahús, íþróttafélög og golfklúbba, svo nokkuð sé nefnt, þótt báðir væru orðnir það litlir að erfitt væri að veita fulla þjónustu. Sveitarfélögin sameinuðust fyrir fáeinum árum í Fjallabyggð en sveitarstjórn gat lítið unnið að hagræðingu fyrr en staðirnir tengdust betur.

Sameining grunnskólanna er dæmi um vel heppnaða ráðstöfun. Einn skólastjóri er nú yfir báðum skólunum og öllum börnunum úr þremur efstu bekkjunum er kennt á Siglufirði. Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir að sameiningin hafi gengið vel og hún skili að minnsta kosti 60 milljóna króna sparnaði fyrir sveitarfélagið á ári.

Til stendur að sameina skólana alveg, meðal annars með því að kenna öllum yngstu börnunum á Ólafsfirði, en til þess að gera það kleift þarf að byggja á báðum stöðum og er verið að undirbúa það. Bæjarstjórinn bætir því við að hagræðingin muni skila sveitarfélaginu miklu á næstu tíu árum, á þessu sviði og öðrum.

Jónína Magnúsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar, segir þegar komið í ljós að daglegt samneyti íbúanna sé dýrmætt. Tekur hún dæmi úr skólanum. „Fleiri nemendur í unglingadeildunum eignuðust félaga í vetur og færri voru lagðir í einelti, samkvæmt könnunum sem gerðar voru í vetur og hægt var að bera saman við kannanir frá vetrinum áður.“ Jónína segir að skýringuna megi finna í því að hópurinn sé stærri og fleiri möguleikar fyrir unglingana að eignast félaga. „Fámennið fer ekki vel með alla,“ segir hún.

Aukin samskipti

Almenningssamgöngur í Fjallabyggð miðast við flutning nemenda skólanna. Sigurður Valur bæjarstjóri viðurkennir að það sé bagalegt og bæta þurfi úr því til þess að samfélagið geti orðið að samstilltri heild og allir geti sótt íþróttaæfingar og þjónustu á milli staðanna.

„Öll þessi hreyfing á fólki gjörbreytir samfélaginu, ekki aðeins í verslun og viðskiptum, aukin samskipti íbúanna skapa ýmsa möguleika,“ segir Jónína Magnúsdóttir.

Er þá ótalið öryggið sem aðgangur að öflugri sjúkrahúsþjónustu og margvíslegri þjónustu á Akureyri veitir.

Gamalgróinn hrepparígur er á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og bæjarbragurinn að mörgu leyti ólíkur. Ólafsfirðingar eru duglegir sjósóknarar og vanir að bjarga sér. Töluverð atvinna er í kringum einyrkja á ýmsum sviðum. Siglufjörður byggir á fornri frægð. Hann byggðist upp í síldarævintýrinu og þótt staðurinn hafi lengi verið á niðurleið hefur verið þar ótrúlega mikil þjónusta og blómstrandi menningarlíf. Stóru fyrirtækin, sem atvinnulífið grundvallaðist á, voru lengi í eigu ríkisins og þykjast menn sjá þess merki á bæjarbragnum.

Ekki er því að neita að núningur hefur orðið í sumum greinum, vegna viðleitni bæjarstjórnar við að hagræða í rekstri og keyra sameiningu sveitarfélaganna í gegn. Það koma oft upp raddir um að ef eitthvað sé gert á Siglufirði þurfi að gera það líka á Ólafsfirði, og öfugt. Ásgeir Logi Ásgeirsson, fyrrverandi bæjarstjóri og bæjarfulltrúi á Ólafsfirði, segir eðlilegt að sameiningin taki tíma. „Menn hafa verið svo lengi að berjast fyrir sinn fjörð og þurfa tíma til að hafa sig upp úr því fari og sjá að þetta eru sameiginlegir hagsmunir allra,“ segir hann.

Ásgeir Logi segir að göngin skapi möguleika til að snúa vörn í sókn í atvinnumálum, eins og á öðrum sviðum. Þannig skapar fjölgun ferðamanna tækifæri sem reynt er að nýta.

Tölur umferðardeildar Vegagerðarinnar um umferð um Múlagöng og Héðinsfjarðargöng sýna að margir ferðamenn hafa ákveðið að skoða göngin og staðina sem þau tengja. Mesta aukningin er um helgar. Umferðin um Múlagöng jókst til dæmis um fjórðung á fyrri hluta ársins og meðalumferðin um Héðinsfjarðargöng var 470 bílar á dag að meðaltali sem er þriðjungi meira en reiknað var með þegar göngin voru undirbúin.

Stærstu seglarnir á þessu svæði, fyrir utan göngin sjálf, eru Síldarminjasafnið og Þjóðlagasetrið á Siglufirði. Aðsókn hefur stóraukist. Á Siglufirði er verið að byggja upp myndarlegt ferðaþjónustufyrirtæki við smábátahöfnina. Gerð hafa verið upp gömul hús og opnaður fínn veitingastaður og kaffihús, ásamt fundasölum og útisvæði. Staðirnir hafa einnig dregið að sér fjölda fólks.

„Það er okkar stóra áskorun að fá ferðafólkið til að staldra lengur við,“ segir Ásgeir Logi sem aðild á að ferðaþjónustufyrirtæki á Ólafsfirði. Ýmislegt hefur verið gert til þess og fleira í bígerð á báðum stöðum. Göngin gefa kost á hringleið um Tröllaskaga og er unnið að markaðssetningu afþreyingar á öllum hringnum.

Langtímaverkefni

„Með göngunum voru stóru línurnar lagðar. Við þurfum að nýta tækifærin sem þau skapa. Það er langtímaverkefni,“ segir Ásgeir Logi Ásgeirsson.

Siglufjörður í hringiðuna

Hallgrímur segir að innlendir ferðamenn komi mikið til að skoða göngin. Áberandi hafi verið hversu margir hópar hafi komið í vor. Hann segir að erlendir ferðamenn spyrji meira til vegar að Síldarminjasafninu og Þjóðlagasetrinu og margir fari á veitingastaðina við smábátahöfnina.

Útlendingarnir eru einnig á höttunum eftir óvenjulegri ferðamannastöðum. „Það komu hingað tveir Þjóðverjar um daginn til að spyrja um fiskbúðina frægu á Siglufirði.“ Svo vill til að Fiskbúð Siglufjarðar er við hliðina á ráðhúsinu.

„Siglufjörður var endastöð en er kominn í hringiðuna,“ segir Hallgrímur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka