Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni í gærkvöldi að hann hafi ekki enn fengið kæru frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni fyrir ærumeiðingar.
Þetta upplýsti Björn á fundi í gærkvöldi á vegum Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem hann kynnti nýja bók sína Rosabaugur sem fjallar um Baugsmálið svonefnt. Hann segir að einn fundarmanna hafi haft það frá Jóni Ásgeiri að hann hefði þegar stefnt Birni fyrir nokkrum vikum síðan.
Jón Ásgeir tilkynnti í júní síðastliðnum að hann hygðist kæra Björn fyrir að hafa sagt í bókinni að hann hafi verið sakfelldur fyrir fjárdrátt í staðinn fyrir meiriháttar bókhaldsbrot.
Björn tilkynnti sjálfur um mistökin á heimasíðu sinni og baðst velvirðingar á þeim. Sagði hann ennfremur að þau yrði leiðrétt í endurprentun á bókinni. Jón Ásgeir sagði það hins vegar engu skipta og að hann ætlaði að leggja fram kæru. Hún hefur hins vegar ekki borist Birni enn að hans sögn.