Kveikt var á tveimur neyðarblysum í Bolungarvíkurgöngum nú í kvöld með þeim afleiðingum að loka þurfti göngunum. Fólk var í bílum inni í göngunum þegar þetta gerðist og mun nokkur ótti hafa gripið um sig.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fylltust göngin af reyk og í fyrstu leit út fyrir að eitthvað væri að brenna í göngunum. Því var göngunum lokað og slökkvilið á Bolungarvík og Ísafirði kallað út.
Eftir að göngin höfðu verið reyktæmd kom í ljós að um var að ræða neyðarblys. Lögreglan á Ísafirði segir rannsókn málsins lokið á vettvangi en henni verður haldið áfram. Hún segir málið litið alvarlegum augum þar sem fólki í göngunum var stefnt í hættu og tvö stór slökkvilið ásamt lögreglu voru send á vettvang.
Engan sakaði í göngunum og ekki er vitað um skemmdir á bílum. Göngin hafa verið opnuð á ný.